Styrkás undirritar samning um kaup á Hreinsitækni og HRT þjónustu

Í dag var undirritaður samningur um kaup Styrkáss hf. á öllu hlutafé í Hreinsitækni ehf., HRT þjónustu ehf. og tengdum félögum („Hreinsitækni“ eða „félagið“). Seljendur eru TF II slhf., framtakssjóður í stýringu Landsbréfa, JTG ehf., einkahlutafélag í eigu Jóns Þórs Gunnarssonar og RG58, einkahlutafélag í eigu Rögnvaldar Guðmundssonar. Kaupsamningurinn er gerður með hefðbundnum fyrirvörum, meðal annars samþykki Samkeppniseftirlits.

Hreinsitækni er leiðandi í umhverfis- og innviðaþjónustu fyrir sveitarfélög og fyrirtæki. Félagið hefur aðstöðu og tækjaflota í fjórum landshlutum. Hjá Hreinsitækni starfa um 150 manns. Velta félagsins árið 2024 nam um 5 milljörðum króna og hagnaður eftir afskriftir (EBIT) var um 800 milljónir króna. Heildarvirði (e. Enterprise value) Hreinsitækni í viðskiptunum er um 9,7 milljarðar króna. Kaupverð hlutafjár nemur um 7 milljörðum króna og verður 25% kaupverðs greitt með reiðufé og 75% kaupverðs greitt með útgáfu nýrra hluta í Styrkási á genginu 24,5 kr. á hlut. Verð hlutabréfa í Styrkási í viðskiptunum er 4% yfir gengi síðustu viðskipta milli ótengdra aðila. Eftir kaupin munu hluthafar Hreinsitækni eignast um 17,5% hlutafjár í Styrkási. Virði hlutafjár sameinaðs félags eftir viðskiptin er um 30 milljarðar króna.   

Með kaupum Styrkás á Hreinsitækni verður til fjórða tekjusvið Styrkáss, á sviði umhverfis- og iðnaðarþjónustu. Hreinsitækni verður áfram rekið sem sjálfstætt félag í kjölfar kaupanna undir óbreyttri forystu Björgvins Jóns Bjarnasonar forstjóra félagsins. Viðskiptin skapa tækifæri til að styrkja þjónustuframboð Styrkáss samstæðunnar, meðal annars til stóriðju og sveitarfélaga auk uppbyggingar nýrra tekjustoða í innviðaþjónustu. Velta Styrkás samstæðunnar fyrstu 9 mánuði ársins nam 47 ma.kr., rekstrarhagnaður eftir afskriftir (EBIT) var 1,9 ma.kr. og hagnaður eftir skatta var 1,3 ma.kr. Vaxtaberandi skuldir Styrkás samstæðunnar að frádregnu handbæru fé í lok september námu um 1 ma.kr. Velta sameinaðs félags á ársgrundvelli verður því tæplega 70 ma.kr. og hagnaður eftir skatta yfir 2 ma.kr.

Ráðgjafar seljenda í viðskiptunum eru ARMA Advisory og Logos lögmannsþjónusta. Fossar fjárfestingarbanki og BBA // Fjeldco eru ráðgjafar kaupanda.

Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkás
„Kaupin á Hreinsitækni og HRT þjónustu eru í samræmi við stefnu Styrkáss um að mynda fjórða kjarnasvið samstæðunnar á sviði umhverfis- og iðnaðarþjónustu. Hreinsitækni hefur verið vel rekið og byggt upp sterkt orðspor fyrir góða þjónustu og áreiðanleika. Viðskiptin skapa Styrkás tækifæri til að þjónusta fyrirtæki og sveitarfélög enn betur með fjölbreyttara þjónustuframboði, þar sem sérþekking, fjárhagslegur styrkur, innviðir og samlegð innan samstæðu verður nýtt til vaxtar.”

Björgvin Jón Bjarnason, forstjóri Hreinsitækni og HRT þjónustu

„Það hefur verið afar ánægjulegt að byggja félagið upp í góðri samvinnu við dugmikinn og samheldinn hóp starfsfólks, hluthafa og tryggra viðskiptavina í gegnum árin. Við erum spennt fyrir því efla starfsemina enn frekar sem hluti af samstæðu Styrkáss og auka með því slagkraft félagsins til að nýta sóknarfærin framundan.“

Next
Next

First Wa­ter lýkur 3,5 milljarða hluta­fjáraukningu